Til að greina vef valdi ég vef sveitarfélagsins Suðurnesjabæjar, https://www.sudurnesjabaer.is/. Suðurnesjabær er yst á á Reykjanesi og varð til árið 2018 þegar sveitarfélögin Garður og Sandgerði sameinuðust. Íbúar voru 3.648 þann 4. ágúst 2020. Suðurnesjabær skiptist í tvo byggðakjarna, Garð og Sandgerði, og þá er Flugstöð Leifs Eiríkssonar einnig í landi sveitarfélagsins.

Til að fá upplýsingar um vefinn ræddi ég við sviðsstjóra stjórnsýslusviðs hjá Suðurnesjabæ en vefur sveitarfélagsins heyrir undir sviðið.
- Markmiðið með vefnum fyrst og fremst að vera upplýsingavefur fyrir íbúa, starfsmenn og viðskiptavini Suðurnesjabæjar um þjónustu sveitarfélagsins. Vefurinn er einnig hugsaður sem vettvangur fyrir íbúa til að koma skoðunum og ábendingum á framfæri.
- Skilgreindir markhópar eru íbúar, starfsmenn og kjörnir fulltrúar Suðurnesjabæjar og einnig nýir íbúar og atvinnurekendur á svæðinu.
- Stjórnsýslusvið sveitarfélagsins ber ábyrgð á vefnum og ritstýrir honum. Nokkrir stjórnendur hafa takmarkaðan aðgang að vefnum og er það einkum til að samræma textaskrif varðandi þjónustu sem þeir bera ábyrgð á.
- Þrír starfsmenn vinna við vefinn en helstu lykilstjórnendur rýna vefinn og þarfagreina með starfsmönnum stjórnsýslusviðs og eru það um 10 manns.
- Næstu skref við þróun vefsins eru að auka stafræna þjónustu, einkum að setja inn stafræn eyðublöð. Einnig er ætlunin að setja inn gagnvirkar upplýsingar eins og tölfræði.
- Ekki hefur verið gerð formleg vefstefna fyrir vefinn.