Ganga með ströndinni og minnismerki

Gönguleið með ströndinni í Reykjanesbæ

Ganga með ströndinni

Gönguleið er meðfram strandlengjunni í Reykjanesbæ. Hún liggur um 10 kílómetra leið frá Stapa að Gróf. Á leiðinni eru fjölmörg upplýsingaskilti um sögu bæjarins, fugla- og dýralíf og margt fleira. Stór hluti leiðarinnar er varinn með grjóthleðslum enda er oft mikill sjógangur á þessari leið.

Minnismerki sjómanna

Gönguleiðin endar (eða byrjar) við Grófina en þar er smábátahöfnin og Duus-hús. Þar rétt hjá er einnig minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson. Verkið er um sex metra hátt og sýnir akkeri og björgunarhring. Verkið var reist að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Minnismerkið er lýst upp.

Vissir þú?

Minnismerki sjómanna var vígt árið 1978. Það var þá á holtinu fyrir ofan Gagnfræðaskóla Keflavíkur sem nú er grunnskólinn Holtaskóli. Það var ekki fyrr en árið 2001 sem verkið var flutt að Hafnargötu og var þá komið á sinn „rétta“ stað við sjávarsíðuna.