Skessan í hellinum og Bergið

Skessan í hellinum við smábátahöfnina í Keflavík

Skessan í hellinum

Við smábátahöfnina í Keflavík býr skessa í helli. Þar er komin skessan úr bókum Herdísar Egilsdóttur um Siggu og skessuna. Hellir skessunnar var opnaður árið 2008 en það ár kom 16. bók Herdísar um skessuna einmitt út. Hún fjallaði um ævintýri Siggu og skessunnar á Suðurnesjum. Hellirinn er um 150 fm og situr skessan í eldhúsi sínu. Þar fyrir framan er rúm skessunnar sem er auðvitað risastórt og er vinsælt að hoppa í því.

Bergið

Hellir skessunnar er í Keflavíkurbergi sem heimamenn kalla alltaf Bergið. Keflavíkurberg er fremsti hluti Hólmsbergs en þar er vinsæl gönguleið. Þar er hægt að skoða ýmis konar náttúru og einnig mannvistarleifar. Á gönguleiðinni er einnig hægt að skoða Hólmsbergsvita. Á veturna er Bergið lýst upp.

Vissir þú?

Ljósanótt, bæjarhátíð Reykjanesbæjar, er kennd við ljósin á Berginu. Ljósanótt er haldin fyrstu helgina í september ár hvert og þá eru ljósin tendruð í fyrsta skipti það ár. Ljósanótt stendur í nokkra daga en hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöldinu. Þá er flugeldasýning og útitónleikar og síðan eru ljósin á Berginu kveikt.