
Víkingaheimar
Í Innri-Njarðvík eru Víkingaheimar sem er ómissand að heimsækja. Þar er hægt að fræðast um víkinga, ferðir þeirra og landafundi, landnám Íslands og margt fleira. Víkingaskipið Íslendingur er þar til sýnis en því var siglt til Ameríku árið 2000. Þar eru einnig sýningar um norræna goðafræði og söguslóðir á Íslandi. Við safnið er skemmtilegt útisvæði með leiktækjum.
Innri-Njarðvík
Njarðvík skiptist í Ytri- og Innri-Njarðvík og því er oft talað um Njarðvíkur. Innri-Njarðvík var lengi lítil þyrping húsa. Undanfarin ár hefur þar verið aðalbyggingarsvæði Reykjanesbæjar og þar búa nú um 4000 manns. Milli Innri- og Ytri-Njarðvíkur eru fitjar þar sem er mikið fuglalíf. Það er vinsælt hjá fjölskyldum að koma þar við og gefa fuglunum brauð.
Vissir þú?
Á hringtorginu fyrir ofan Víkingaheima stendur sjö metra hátt víkingasverð upp úr jörðinni. Þar er um að ræða listaverk eftir Stefán Geir Karlsson. Sverðið átti upphaflega að vera á Melatorgi og minna á Þjóðminjasafnið. Verkið er byggt á sverði frá 10. öld sem er í merki safnsins. Hugmyndin var umdeild og deilt var um hvort sverðið passaði á torgið. Það endaði því í Innri-Njarðvík þar sem það passar vel inn í umhverfið og tekur á móti gestum Víkingaheima.