
Stefnumótastaurinn
Við Hafnargötu í Keflavík er gamaldags ljósastaur sem spilar lag. Þar er hægt að hlusta á brot úr laginu Skólaball eftir Magnús Kjartansson sem hljómsveitin Brimkló gerði frægt. Sagan sem sögð er í laginu gerðist einmitt þar sem staurinn stendur. Þar börðust Magnús og vinur hans um hylli stúlku eftir skólaball en stúlkan er eiginkona Magnúsar í dag. Í textanum segir „…upp að ljósastaur sér hallaði og um ennið hélt…“ og nú er hægt að halla sér upp að staur á sama stað og hlusta á lagið um leið.
Sólvallagata 6
Ekki langt frá ljósastaurnum stendur Sólvallagata 6. Það er ósköp venjulegt íbúðarhús sem lætur ekki mikið yfir sér. Það lék þó lykilhlutverk í upphafi íslenskrar rokktónlistar. Húsið var æskuheimili Rúnar Júlíussonar og þar varð hin goðsagnakennda hljómsveit Hljómar til. Húsið var oft kallað Skáhúsið af nágrönnum og það skilst þegar húsið er skoðað.
Vissir þú?
Rúnar Júlíusson er fyrst og fremst þekktur sem ein helsta rokkstjarna Íslandssögunnar en hann var einnig mjög liðtækur knattspyrnumaður. Rúnar varð Íslandsmeistari með Keflavík árið 1964 og skoraði einmitt markið sem tryggði liðinu titilinn. Íþróttafréttamaður Morgunblaðsins lýsti markinu með þessum orðum „… en þar kom Rúnar Júlíusson brunandi eins og skeiðhestur með makkann flagsandi og afgreiddi knöttinn í netið“.