Eftir að hafa eytt degi í Reykjanesbæ er upplagt að halda áfram og fara í ferð um Reykjanes. Þar er hægt að skoða fjölbreytta náttúru og áhugaverða staði.
Frá Reykjanesbæ eru aðeins nokkrir kílómetrar í Garðinn. Þar er nauðsynlegt að skoða Garðskagavita og ekki er verra að vera þar um sólsetur sem Garðurinn er frægur fyrir. Þess má geta að bæjarhátíð Garðbúa heitir einmitt Sólseturhátíð.
Þegar haldið er áfram frá Garði er stutt í Sandgerði en saman mynda þessir tveir bæir sveitarfélagið Suðurnesjabæ. Í Sandgerði er Þekkingarsetur Suðurnesja en þar er hægt að kynnast heimskautunum og lífinu í sjónum.
Frá Sandgerði er beygt inn á Stafnesveg en þar er hægt að skoða Hvalsneskirkju, Stafnesvita og Gálgaklett. Hallgrímur Pétursson þjónaði í Hvalsnesi og þar er hægt að kynnast merkilegri sögu hans.
Stafnesvegur endar við Hafnir og þar er haldið áfram út á Reykjanes. Þar er mjög margt að sjá; Hafnaberg, Sandvík, Brúin milli heimsálfa, Gunnuhver, Brimketillinn í Staðarbergi og sjálfur Reykjanesviti.
Þá er komið í Grindavík sem er öflugt sjávarpláss þar sem höfnin er miðpunkturinn. Grindavík er líka sá staður í heiminum þar sem eru flestir fish and chips-staðir miðað við höfðatölu. Hinum megin við bæjarfjallið Þorbjörn er svo hið heimsfræga Bláa lón.
Í stað þess að halda áfram um Grindavíkurveg er upplagt að fara Suðurstrandarveg og beygja inn Krýsuvíkurveg sem endar í Hafnarfirði. Þar er hverasvæðið við Seltún og Kleifarvatn.
Hérna hafa aðeins verið taldir upp staðir við þjóðveginn en á Reykjanesi er fjölbreytt náttúra sem er vel þess virði að skoða.
Til að sjá hvað Reykjanes býður upp á er best að skoða upplýsingavefinn Upplifðu Reykjanes.