
Duus-hús
Við Grófina í Keflavík eru Duus-hús en þar eru Byggðasafn og Listasafn Reykjanesbæjar, upplýsingamiðstöð ferðamanna og Gestastofa Reykjaness jarðvangs. Í húsunum eru níu sýningarsalir þar sem Byggðasafnið kynnir sögu svæðisins og Listasafnið stendur fyrir fjölbreyttum listsýningum. Segja má að húsin sjálf séu hluti af sýningunum en saga þeirra nær aftur á 19. öld. Elsta húsið, Bryggjuhúsið, var reist árið 1877 af Duus-verslun.
Smábátahöfnin
Duus-hús standa við smábátahöfnina í Gróf. Þar var áður Dráttarbraut Keflavíkur en smábátahöfnin var vígð árið 1992. Þaðan eru gerðir út smábátar til veiða og einnig bátar sem gera út á hvalaskoðun og sjóstangaveiði. Við höfnina er hellir skessunnar.
Vissir þú?
Túnið fyrir framan Duus-hús heitir Keflavíkurtún. Þar hefur verið komið fyrir munum frá Landhelgisgæslunni en þar er fallbyssa úr varðskipi, skel af tundurdufli og togvíraklippur. Klippurnar voru notaðar í þorskastríðunum við Breta og notuðu varðskipin þær til að skera á veiðarfæri skipa sem voru við veiðar innan landhelginnar. Klippurnar þóttu mikið leynivopn þegar þær voru teknar í notkun árið 1972 og áður en yfir lauk hafði verið klippt á togvíra um 100 breskra togara.