Skrúðgarðurinn og Pulsuvagninn

Skrúðgarðurinn í Keflavík

Skrúðgarðurinn í Keflavík

Skrúðgarðurinn í Keflavík er í miðbænum, rétt við Ráðhús Reykjanesbæjar. Þar er voldug flaggstöng sem var reist í tilefni lýðveldisstofnunarinnar. Undir stönginni er veglegur stallur sem sýnir landvættina. Á honum er einnig lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Stöngin er 17,5 metra há og þar er íslenski fáninn aðeins dreginn að húni 17. júní ár hvert af einhverjum íbúa bæjarins. Þeirri reglu hefur verið fylgt en þó hefur verið flaggað þegar forseti Íslands hefur heimsótt sveitarfélagið.

Pulsuvagninn

Það er ekki hægt að koma í Keflavík án þess að koma við á Pulsuvagninum sem er við Skrúðgarðinn. Hann hefur verið á sama stað í fjörutíu ár. Þó að vöruframboðið og annað hafi breyst í gegnum árin er alltaf eins fyrir Keflvíkinga að koma þar við og fá sér pulsu, hamborgara eða hinn víðfræga Villa-borgara sem er kenndur við stofnanda vagnsins.

Vissir þú?

Þegar flaggstöngin í skrúðgarðinum var vígð á þjóðhátíðardaginn árið 1945 var hún hæsta flaggstöng á Íslandi og er enn. Fáninn sem þar er dreginn að húni ár hvert er um 25 fm að flatarmáli. Upprunalegi fáninn var fyrst notaður á lýðveldisstofnuninni á Þingvöllum árið 1944 en endaði síðan í Keflavík eftir krókaleiðum. Nú er þriðji fáninn í notkun en upprunalegi fáninn er varðveittur á Byggðasafni Reykjanesbæjar.