b. Vefgreining

Uppsetning

Þegar ég skoðaði vefinn fannst mér hann koma vel út við fyrstu sýn. Hann er nokkuð hefðbundinn sem vefur fyrir sveitarfélag og efnisflokkar eru sígildir fyrir slíka vefi. Aðalefnisflokkar eru þrír, þjónusta, stjórnsýsla og mannlíf, og þeir koma strax fram efst á forsíðunni ásamt nafni og merki Suðurnesjabæjar. Þar fyrir neðan eru flýtileiðir á þrettán undirsíður sem megináhersla er lögð á og þar fyrir neðan er leitargluggi. Þessi uppsetning á efri hluta forsíðunnar kemur vel út og gefur strax til kynna hvaða vef er um að ræða og leiðir mann beint að efni hans og helstu síðum.

Á neðri hluta forsíðunnar eru þrír flokkar; fréttir, viðburðir og upplýsingar um þjónustu stofnana og fyrirtækja. Þessir flokkar koma hver á eftir öðrum og eru settir eins upp. Fjórar færslur birtast á tölvuskjá og síðan gefa örvar til kynna að hægt sé að skrolla til hægri til að sjá fleiri færslur. Flokkurinn með fréttum er nokkuð skýr en þegar ég skoðaði vefinn var enginn viðburður skráður, enda lítið um að vera vegna samkomutakmarkana.

Neðsti flokkurinn var yfirlit yfir þjónustu í sveitarfélaginu og mér fannst hann koma verr út. Þar voru upplýsingar um sundlaugar, bókasöfn, önnur söfn og náttúru en einnig um veitingastaði og gistingu. Mér fannst frekar ruglingslegt hvernig þessu var blandað saman og síðan var hægt að skoða hvern flokk fyrir sig en hver þeirra innihélt aðeins tvö eða þrjú atriði. Undir flokknum náttúra var síðan tjaldsvæði, veitingastaður og Þekkingarsetur og var erfitt að átta sig á hvaða tilgangi sá flokkur þjónaði. Atriðin í þessum flokki eru níu talsins og því nokkuð mikið í lagt að skipta þeim í marga flokka og þá þurfti að skrolla til hliðar á forsíðunni til að sjá öll atriðin. Það er líka spurning hvort það sé þess virði að nota svo mikið pláss fyrir upplýsingar fyrir ferðamenn sem ólíklegt er að heimsæki vef sveitarfélags til að finna veitingastaði eða gistingu.

Í fæti eru upplýsingar um bæjarskrifstofu, heimilisfang, opnunartíma, símanúmer, netföng og tenglar á samfélagsmiðla, ábendingasíðu og fundagátt. Þessi hluti er skilmerkilegur og þar koma allar helstu upplýsingar skýrt fram.

Það skal tekið fram að þegar ég skoðaði vefinn voru ýmsar takmarkanir í gangi vegna Covid-19. Þetta hafði áhrif á vefinn enda voru engir viðburðir skráðir í viðburðaflokkinn og þá var stór auglýsing efst á forsíðunni með tengil á upplýsingar um ráðstafanir vegna fjöldatakmarkana o.þ.h.

Skjáskot af fæti vefsins
Í fæti vefsins koma allar upplýsingar sem ættu að vera þar.

Markmið

Þegar vefurinn er skoðaður uppfyllir hann vel markmiðin sem sett hafa verið fram. Hann veitir upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins og greinilegt er að nokkur áhersla er lögð á upplýsingar fyrir ferðamenn. Þessi atriði koma öll vel fram á forsíðunni sem endurspeglar efni vefsins vel. Eitt markmiðið var að vefurinn ætti að nýtast íbúum til að koma skoðunum á framfæri. Sá hluti er ekki mjög áberandi á forsíðunni en þar er tengill á ábendingasíðu í fæti. Í upplýsingum frá ábyrgðarmanni vefsins kom fram að til stendur að auka stafræna þjónustu og notkun á rafrænum eyðublöðum og líklega er þessi hluti þjónustunnar í þróun.

Skjáskot af flokkum og undirflokkum
Aðalflokkar eru einfaldir og auðvelt að skoða undirflokka og síður.

Skipulag

Efni vefsins er skipt upp á þrjá flokka; þjónusta, stjórnsýsla og mannlíf. Þessir þrír flokkar koma skýrt fram efst á forsíðunni og leiða mann vel áfram. Aðalflokkarnir þrír eru svo alltaf efst á vefnum sama hvaða síðu er verið að skoða. Undir hverjum aðalflokki koma svo nokkrir undirflokkar og þar undir koma svo síðurnar á vefnum.

Á hverri síðu eru brauðmolar þar sem eru tenglar á forsíðu, aðalflokk og undirflokk sem viðkomandi síða heyrir undir. Hægra megin birtist svo yfirlit yfir allar síður sem tilheyra sama undirflokki og síðan sem verið er að skoða. Þetta er vel upp sett, leiðir mann mjög vel áfram um vefinn og veitir góða yfirsýn yfir efnið. Miðað við markmið vefsins og þær kröfur sem maður gerir almennt til vefs sveitarfélags þjónar vefurinn notendum vel. Uppsetningin er skýr og það er auðvelt að átta sig á hvar upplýsingar eru.

Flokkarnir á vefnum eru almennt skýrir og rétt nefndir. Notuð eru heiti sem almennt eru notuð um málefni sveitarfélaga og notendur ættu að kannast við eins og frístundir, velferð, fundargerðir, ráð, nefndir og stjórnir o.s.frv. Flokkarnir endurspegla efnið vel og leiða mann vel áfram um vefinn. Aftur er þátturinn um þjónustu til vandræða en hann heitir Saman í Suðurnesjabæ sem er ekki mjög lýsandi.

Snjalltæki

Vefurinn kemur vel út í snjallsíma og spjaldtölvu og allt efni kemst vel til skila. Síður vefsins koma vel út og eru auðlesnar. Í farsíma og langsum-sniði í spjaldtölvu eru aðalflokkarnir undir „hamborgara“-merki efst á forsíðunni. Þá er svo hægt að greina í undirflokka sem aftur eru opnaðir til að fá yfirlit yfir síður. Þetta er mjög aðgengilegt og segir sig nokkuð sjálft. Ef eitthvað er kemur vefurinn að sumu leyti betur út í farsíma en tölvu og má velta fyrir sér hvort gengið hafi verið út frá snjalltækjum við hönnun hans.

Skjáskot af forsíðu vefsins í farsíma
Forsíða vefsins kemur vel út í farsíma.