Í bókinni Don´t Make Me Think, Revisited fjallar Steve Krug um það sem hann kallar lykilatriði vefhönnunar. Forsíða vefsins var skoðuð út frá þessum atriðum:.
- að virðingarröð sé skýr.
- að notast sé við hefðir.
- að þættir séu vel afmarkaðir.
- að augljóst sé hvar eigi að smella.
- að lítið sé af truflunum.
- að efni sé skannanlegt.
Virðingarröð
Þegar forsíðan á vef Suðurnesjabæjar er skoðuð er virðingarröð á síðunni skýr. Aðalflokkar eru efst og leiða notandann áfram í undirflokka og síður. Síðan koma nokkrar síður sem áhersla er lögð á, væntanlega vegna þess að þær eru mest notaðar. Þar fyrir neðan kemur leitargluggi. Þetta er vel upp sett og leiðir mann vel áfram inn í vefinn. Atriði á forsíðunni er vel flokkuð niður og það er skýrt hvaða atriði eiga saman, eins og flýtileiðir og fréttir.
Notkun á hefðum
Notkun á hefðum er skýr á forsíðunni. Merki Suðurnesjabæjar er efst til vinstri á vefnum og leiðir mann á forsíðu. Aðalflokkar eru þar til hliðar og gefa greinilega til kynna hvar á að hefja leiðina að undirflokkum- og síðum. Leitargluggi er reyndar þar fyrir neðan en ekki efst til hægri eins og er algengast. Það er samt skýrt og þegar verið er að skoða undirsíður er táknið fyrir leit efst til hægri á vefnum. Í fæti eru upplýsingar sem maður reiknar með þar; heimilisfang, opnunartími, símanúmer, netfang og kennitala. Þar eru einnig tenglar á samfélagssíður sveitarfélagsins og ábendingar.
Afmörkun þátta
Þættir eru skýrt afmarkaðir á forsíðu vefsins. Leiðakerfi, flýtileiðir, leitarsvæði, frétta-, viðburða- og þjónustusvæði og síðan fótur. Þetta liggur ljóst fyrir og það ætti að vera augljóst fyrir notanda að átta sig á því hvaða þættir eru á forsíðunni og hvernig þeir greinast að.
Skýrir tenglar
Yfirleitt er augljóst hvar á að smella á forsíðunni. Eftir nokkuð nákvæma yfirferð fannst ekkert sem virtist vera tengill en var það ekki og heldur ekkert sem var tengill án þess að það væri skýrt. Tenglar á netföng og símanúmer í fæti eru undirstrikaður texti en aðrir tenglar eru annað hvort myndir eða merki sem var augljóst að væru tenglar eða texti í töflum eða listum sem var líka augljóst að væru tenglar. Það eina sem er ekki skýrt varðandi tengla og hvar á að smella á þá er í þættinum um þjónustu. Þar koma upplýsingar um sundlaugar, bókasöfn, tjaldsvæði og fleira. Þar kemur texti um viðkomandi stað og þar virðast vera tenglar á netföng og undirsíður. Öll færslan er hins vegar mynd sem er tengill á undirsíðu um staðinn og þar birtist textinn á forsíðunni aftur. Þar er þá hægt að smella á þessa tengla. Þetta er ruglingslegt og væri hægt að leysa betur. Neðst á forsíðunni er auglýsing fyrir Reykjanes GeoPark en á henni er inngangstexti og ör sem virðist vera tengill. Öll auglýsingin er tengill sem opnast í nýjum glugga en fer aftur á forsíðu vefs Suðurnesjabæjar.

Truflanir
Lítið er af truflunum á forsíðunni, þ.e. af óþarfa efni, myndum eða slíku. Það eina sem truflar er þátturinn með yfirliti yfir þjónustu eins og söfn, veitingastaði, gistingu o.þ.h. Hann er eins settur upp og þættirnir þar fyrir ofan sem snúast um frétti og viðburði. Í þeim þáttum er aðeins fyrirsögn og mynd en í síðasta þættinum birtist allur textinn með hverri færslu. Hann er nærri 30 línur í stærstu færslunni en ein til tvær línur í sumum. Þessi þáttur er því mjög stór miðað við annað á forsíðunni og stundum eru fjórar færslur sjáanlegar með frekar lítinn texta en ramminn er samt jafnstór.
Skannanleiki
Efnið á forsíðunni er vel skannanlegt enda eru þættir skýrir og afmarkaðir og auðvelt að renna yfir síðuna. Það hjálpar að ekki er mikið efni á síðunni og því er vel raðað upp.