Til að bera forsíðu vefs Suðurnesjabæjar saman við forsíðu annars vefs valdi ég vef Grindavíkur, http://www.grindavik.is/. Grindavík er sveitarfélag á Reykjanesi eins og Suðurnesjabær og voru íbúar 3.549 þann 4. ágúst 2020 en þá voru íbúar Suðurnesjabæjar 3.648. Þessi tvö sveitarfélög eru því næstum jafnfjölmenn og eru að fást við sömu verkefni.
Til að bera þessa vefi saman var miðað við umfjöllun Steve Krug um lykilatriði vefhönnunar í bókinni Don´t Make me Think, Revisited:
- að virðingarröð sé skýr.
- að notast sé við hefðir.
- að þættir séu vel afmarkaðir.
- að augljóst sé hvar eigi að smella.
- að lítið sé af truflunum.
- að efni sé skannanlegt.

Virðingarröð
Virðingarröð á forsíðunni er nokkuð skýr en þó vantar aðeins upp á. Aðalflokkar eru efst og þar undir birtast undirflokkar og síðan síður á vefnum. Fréttir ná fyrir stóran hluta forsíðunnar en til hægri innan um fréttir eru nýjustu fundargerðir og tilkynningar og er það ekki mjög skýrt. Neðarlega á síðunni eru myndbönd og síðan tenglar á flýtileiðir og það sem er efst á baugi en síðan koma fleiri fréttir. Listi yfir viðburði er neðst á forsíðunni en ætti kannski að vera meira áberandi. Það skal tekið fram að vegna samkomutakmarkana voru engir viðburðir skráðir þegar síðan var skoðuð.
Varðandi virðingarröð vantar herslumuninn að þessi þáttur sé í góðu lagi sem hann er á vef Suðurnesjabæjar.
Notkun á hefðum
Notkun á hefðum er nokkuð ábótavant á síðunni. Merki Grindavíkur er efst til vinstri á vefnum og leiðir mann á forsíðu. Aðalflokkar eru þar til hliðar og gefa greinilega til kynna hvar á að hefja leiðina að undirflokkum- og síðum. Leit er efst til hægri en þegar smellt er þar opnast mjó lína efst á síðunni og er ekki mjög skýrt. Í fæti eru helstu upplýsingar um opnunartíma, símanúmer, netföng og aðrar grunnupplýsingar
Það sem ekki fylgir hefðum og er ruglingslegt er að efst á síðunni er tengill sem heitir Bæjardyr. Þar opnast innskráningarsíða ísland.is en ekki er skýrt af hverju fólk á að skrá sig þar inn. Við hliðina á tenglinum Bæjardyr er tengill sem heitir Íbúagátt. Þar er síða þar sem notandi getur skráð sig inn og sinnt ýmis konar þjónustu gagnvart sveitarfélaginu. Þar kemur einnig fram að upplýsingar um fjárhagslega stöðu séu undir Bæjardyr. Þetta er óskýrt og ekki samkvæmt hefðum. Sigurjón Ólafsson bendir á það í bók sinni um vefmál að á Íslandi sé komin hefð fyrir að nota Mínar síður eða Innskráning fyrir sérsvæði notanda á vef. Á vef Grindavíkur er þessu ekki fylgt, aðkoma notanda að þessari þjónustu er ekki skýr og tengillinn Bæjardyr er illa nefndur.
Þegar þessi þáttur er borinn saman við vef Suðurnesjabæjar kemur hann síður út. Verið er að nota sérheiti yfir tengil sem flestir kannast við undir hefðbundnu heiti.
Afmörkun þátta
Þættir á forsíðunni eru misvel afmarkaðir. Fréttir eru mjög margar og áberandi á síðunni. Tveir flokkar, nýjustu fundargerðir og tilkynningar, eru til hægri á síðunni innan um fréttir og týnast aðeins. Neðarlega á síðunni eru myndbönd og síðan flokkar um það sem er efst á baugi en þar fyrir neðan koma fleiri fréttir og er þetta ekki mjög skýrt.
Þessi hluti kemur mun betur út á vef Suðurnesjabæjar en þar er forsíðan mun einfaldari. Þættir eru mun færri þar og betur afmarkaðir.
Skýrir tenglar
Á síðunni er almennt nokkuð skýrt hvar er hægt að smella. Þó eru nokkur smáatriði sem ekki eru skýr og frágangur ekki nógu góður. Margir tenglar á síðunni eru í bláum lit, þar á meðal Nánar í fréttum og atriði í flýtileiðum og efst á baugi. Í flokkunum Nýjustu fundargerðir og Tilkynningar eru atriðin í svörtum lit þó hægt sé að smella á þau en það er samt nokkuð skýrt. Þar eru flokkaheitin í bláum lit en hægt er að smella á Nýjustu fundargerðir en ekki á Tilkynningar. Í þessum tveimur þáttum eru dagsetningar líka tenglar sem leiða ekki neitt. Í fæti eru netföng ekki tenglar eins og maður myndi reikna með.

Það vantar upp á að alltaf sé skýrt hvar eigi að smella en þessi þáttur er betur settur upp á forsíðu vefs Suðurnesjabæjar.
Truflanir
Ekki eru sérstakar truflanir á síðunni og það sem þar er á allt erindi við notandann. Það sem truflar helst er hvað efnið er mikið. Á forsíðunni birtast 12 fréttir og þær yfirgnæfa að vissu leyti aðra þætti. Þá er uppröðun mismunandi þátta ekki séstaklega skýr og það truflar.
Þessi þáttur er í heldur betra lagi á vef Suðurnesjabæjar.
Skannanleiki
Efnið á forsíðu vefsins er þokkalega skannanlegt en þó mætti gera betur. Hægt er að renna yfir síðuna og sjá leiðakerfi með nokkuð auðveldum hætti. Það sem truflar helst er að það er mikið af efni á síðunni, fréttir eru mjög margar og aðrir þættir eru þar á milli. Þar að auki er frekar lítið pláss á milli einstakra þátta og þeir renna því saman.
Annað sem ekki er skannanlegt eru flokkar efst á vefnum. Í leiðbeiningum fyrir skrif á vef breska ríkisins, gov.uk, er varað við því að nota &-táknið og lagt til að nota einfaldlega orðið og. Meðal flokka efst á vef Grindavíkur eru Starfsmenn&Símanúmer og Kort&Teikningar. Þetta er ekki skýrt og gerir erfiðara að skanna þennan hluta vefsins og er að auki til ama fyrir þá sem eiga erfitt með lestur.
Þessi þáttur er mun betur leystur á vef Suðurnesjabæjar.