f. Notendaprófun

Notendaprófun var gerð miðað við umfjöllun í bókinni Rocket Surgery Made Easy eftir Steve Krug. Þátttakendur voru fjórir og komu úr hópi ættingja og vina. Þátttakendur búa allir í Reykjanesbæ þannig þeir þekktu ekki vef Suðurnesjabæjar en könnuðust við sveitarfélagið. Prófunin var gerð á heimili eða vinnustað viðkomandi. Tveir skoðuðu vefinn í fartölvu, einn í borðtölvu og einn í spjaldtölvu. Einn þátttakandi skoðaði vefinn einnig í farsíma.


Þátttakendur

  • Kona, 62 ára, fulltrúi
    Mjög tölvufær og notar tölvu í vinnu
    Notar tölvu einnig í áhugamál eins og hönnun og dýr
  • Karl, 54 ára, spænskukennari
    Mjög tölvufær og notar tölvu í vinnu
    Notar tölvu einnig í áhugamál eins og forritun og skák
  • Kona, 53 ára, bókavörður
    Mjög tölvufær og notar tölvu í vinnu
    Notar tölvu einnig í áhugamál eins og samfélagsmiðla og ferðalög
  • Karl, 45 ára, sagnfræðingur
    Mjög tölvufær og notar tölvu í vinnu
    Notar tölvu einnig í áhugamál eins og samfélagsmiðla og útivist

Prófunin

Þátttakendur voru beðnir um að skoða forsíðu vefsins og meta hana. Spurt var hvort viðkomandi áttaði sig strax á því um hvaða vef væri að ræða og til hvers hann væri. Einnig hvort þátttakendum þætti forsíðan vel upp sett, að leiðakerfi væri skýrt og grunnupplýsingar eins og opnunartími, símanúmer og netfang væru aðgengilegar.

Á vef Suðurnesjabæjar geta notendur ekki skráð sig inn eða leyst úr sínum málum á vefnum sjálfum. Þátttakendur fengu því fjögur verkefni sem náðu yfir notkun á vefnum: að finna upplýsingar, finna eyðublað til að fylla út, senda ábendingu af ábendingasíðu og breyta tungumáli vefsins. Allir þátttakendur fengu þessi fjögur verkefni og voru beðnir um að leysa þau án þessa að nota leit:

  • Finna upplýsingar um félagsmiðstöðina Eldingu, finna hver er forstöðukona og hvernig hægt er að komast í samband við hana.
  • Finna og prenta út eyðublað til að sækja um frístundastyrk.
  • Senda almenna ábendingu til sveitarfélagsins.
  • Breyta tungumáli vefsins í pólsku.
Skjáskot af síðu með eyðublaði fyrir frístundastyrk
Þátttakendur voru beðnir um að finna eyðublað til að sækja um frístundastyrk.

Niðurstöður

Þátttakendur í prófuninni voru sammála um að vefurinn væri almennt góður. Þeim fannst forsíðan einföld og vel upp sett. Leiðakerfi væri skýrt, flýtileiðir gagnlegar og leit auðfundin. Þátttakendur fundu allir grunnupplýsingar án þess að leita og nefndu allir að þeir hefðu gert ráð fyrir að þær væru í fæti vefsins. Tveir nefndu að þeim fannst vanta að flýtileið væri á upplýsingar um starfsfólk en það væri eitthvað sem þeir nýttu oft þegar þeir nota vefi stofnana eða fyrirtækja.

Þegar kom að verkefnunum sem þátttakendur fengu voru niðurstöður þessar:

  • Finna upplýsingar um félagsmiðstöðina Eldingu, finna hver er forstöðukona og hvernig hægt er að komast í samband við hana.
    Þátttakendur fundu allir þessar upplýsingar. Einn þátttakandi valdi Frístundavefur í flýtileiðum og lenti þá á sérvef um frístundir í sveitarfélaginu. Þar voru upplýsingar um félagsmiðstöðina en þar kom ekki fram hver er forstöðukona en það var reyndar sett inn í verkefnið til að gera það raunverulegra.
  • Finna og prenta út eyðublað til að sækja um frístundastyrk.
    Allir þátttakendur leystu þetta verkefni auðveldlega. Tveir fundu þáttinn Eyðublað í flýtileiðum og hinir tveir fóru í leiðakerfið og fundu Umsóknir og eyðublöð undir Stjórnsýsla. Allir þátttakendur voru sammála um að þetta hafi verið nokkuð skýrt og ætti ekki að vera til vandræða.
  • Senda almenna ábendingu til sveitarfélagsins.
    Þátttakendur leystu allir þetta verkefni. Þrír fundu tengil á ábendingasíðu í fæti vefsins og einn í leiðakerfi undir Þjónusta. Þeim fannst þetta þó ekki augljóst og þurftu að leita að tenglinum.
  • Breyta tungumáli vefsins í pólsku.
    Þátttakendum gekk misvel að leysa þetta verkefni. Tengill á stillingar á tungumáli er efst á vefnum við hlið aðalflokkanna en þar stendur EN / PO fyrir ensku og pólsku. Þrír áttu erfitt með að sjá tengilinn vegna þess að textinn féll inn í mynd á forsíðunni og var því ógreinilegur. Þátttakendur í prófuninni skoðuðu allir forsíðuna og þurftu því að leita og einn sagðist aðeins hafa fundið stillinguna af því að hann gerði ráð fyrir að hún væri nokkurn veginn á þessum stað. Einn fann þessa stillingu alls ekki og við skoðun kom í ljós að hann notaði annan vafra en hinir. Sá sem skoðaði vefinn í farsíma fann stillinguna ekki.
Skjáskot af stillingu fyrir tungumál
Stilling fyrir tungumál sést misvel eftir því hvaða tæki eða vafri er notaður.

Úrbætur

Þátttakendur voru almennt sammála um að vefur Suðurnesjabæjar væri aðgengilegur og vel upp settur. Það tók alla smátíma að finna ábendingasíðuna og þurftu allir þátttakendur að leita að henni. Það er kannski ekki afgerandi galli en miðað við að það er eitt af markmiðunum með vefnum að gera bæjarbúum kleift að koma skoðunum sínum á framfæri er spurning hvort hægt væri að gera þennan þátt meira áberandi. Einn þátttakandi taldi að þessi þáttur ætti heima í flýtileiðum og það væri góð lausn. Ef ætlunin er að leggja meiri áherslu á þennan þátt þyrfti jafnvel að gera hann meira áberandi ofarlega á forsíðunni.

Eins og kom fram voru þátttakendur í vandræðum með að koma auga á stillingu fyrir tungumál vegna þess að hún féll inn í mynd á forsíðu. Einn fann tengilinn alls ekki og hann fannst ekki í farsíma. Þetta þetta var skoðað kom í ljós að tengillinn sést ekki þegar Microsoft Edge-vafrinn er notaður og heldur ekki í farsíma. Vefurinn var einnig skoðaður í Google Chrome og Firefox. Í tölvu var tengillinn ógreinilegur á forsíðunni í ákveðnum skjástærðum vegna þess að hann féll inn í mynd. Ef þessi stilling er ekki aðgengileg í farsíma og öllum vöfrum er það mjög bagalegt og þarf að bæta úr enda er það virkilega góð þjónusta að bjóða upp á allt efni vefsins á ensku og pólsku auk íslensku.