h. Hraði vefsins

Til að skoða hraða vefsins var notast við PageSpeed Insights frá Google. Þrjár síður voru skoðaðar, forsíðan, ein nýleg frétt og dæmigerð undirsíða. Síðurnar voru skoðaðar sex daga í röð til að fá meðaltal og taka út gildi sem voru greinilega frávik. Þar var einkunn skoðuð og hvort síðurnar stóðust svokallað Core Web Vitals próf. Prófið mælir mikilvægustu atriðin þegar kemur að hraða vefs og gefur einkunn þar sem 90 – 100 er framúrskarandi, 50 – 89 er viðunandi en þarfnast úrbóta og 0 – 49 er óviðunandi.

Skjáskot af niðurstöðum um hraða vefsins
Skjáskot af niðurstöðum um hraða vefsins.

Niðurstöður

Einkunn fyrir hraða forsíðunnar í borðtölvu var 68 en einkunnin fyrir farsíma var 34. Forsíðan stenst því Core Web Vitals próf í tölvu en ekki þegar kemur að hraða í farsíma. Tölurnar fyrir fréttina voru 94 í borðtölvu og 59 í farsíma og fyrir undirsíðuna voru niðurstöðurnar 96 og 64. Undirsíðurnar eru því mun hraðari sem kemur ekki á óvart enda eru þær mun einfaldari en forsíðan.

ForsíðaFréttUndirsíða
Borðtölva689496
Farsími345964


Úrbætur

Til að skoða mögulegar úrbætur var forsíðan skoðuð. Þegar kemur að því að skoða hvaða aðgerða er hægt að grípa til kemur PageSpeed Insights með tillögur. Varðandi hraða síðunnar í borðtölvu er bent á nokkur atriði en ekkert þeirra er þó aðkallandi. Varðandi hraða vefsins í farsíma eru þrjár tillögur um úrbætur.

  • Í fyrsta lagi að vista myndir í nýjasta formi eins og JPEG 2000, JPEG XR, og WebP frekar en PNG eða JPEG.
  • Í öðru lagi að laga atriði í CSS eða JavaScript sem hægja á niðurhali síðunnar. Þar væri hægt að færa þessi atriði úr höfði síðunnar inn í síðuna sjálfa eða láta þau bíða þar til helstu þættir síðunnar hafa hlaðist niður.
  • Í þriðja lagi er mælt með því að fjarlægja JavaScript sem ekki er notað.
Skjáskot af tillögum um úrbætur á hraða vefsins í farsíma
Skjáskot af tillögum um úrbætur á hraða vefsins í farsíma.