Verkefni í styttingu texta, styttur úr 786 orðum í 364 orð
Grein af vef Stundarinnar:
https://stundin.is/grein/9788/glansmyndafolkid-sem-vid-elskum-ad-hata/
Glansmyndafólkið sem við elskum að hata
Hver veit nema sjálfsmyndarfólkið þurfi mest á stuðningi okkar að halda?

Kannski er hann með six-pakk þótt hann fari aldrei í ræktina. Kannski er hún alltaf að klífa fjöll eða er umvafin kláru og fallegu fólki sem þú vildir óska að þú þekktir. Kannski eru þau óþolandi fullkomin og eiga óaðfinnanlegan garð og börn sem kúka aldrei á stofuteppið. Glansmyndafólkið.
Allt fyrir góða selfie
En víkjum aftur að fullkomnu týpunni sem þú elskar að hata á samfélagsmiðlum. Hún er kannski ekki að reyna að selja þér neitt, en samt langar þig að kaupa þér annað líf eftir að hafa flett í gegnum albúmið hennar. Það er enginn með svona six-pakk, hann var bara með góða lýsingu og flottan filter. Hún keyrði kannski langleiðina upp fjallið og labbaði síðasta spölinn til að ná góðri selfie. Helvítis glansmyndafólkið.
Þegar þögnin er betri kostur
Það eru þó ekki allir í aðstöðu til að opna sig um þær áskoranir sem við þeim blasa. Foreldri unglings með persónuleikaröskun þjáist kannski í einrúmi, fremur en að tjá sig opinskátt um vandamálið með tilheyrandi berskjöldun fyrir unglinginn. Stelpu sem var nauðgað er beinlínis óheimilt að tala um það opinberlega, fyrir það gæti hún verið sökuð um ærumeiðingar.
Öll heyjum við bardaga
Ég spurði fylgjendur mína á Instagram hvað þeim fyndist um glansmyndafólkið. Þá svaraði mér kona sem á eiginmann sem glímir við alvarlegt krabbamein. Líf hennar einkenndist af stöðugum ótta, áhyggjum og þunglyndi. Sálfræðingur ráðlagði henni að vega upp á móti þessu með því að finna jákvæða fleti tilverunnar. Þessum litlu augnablikum safnaði konan samviskusamlega á síðuna sína, eins og til að púsla saman eigin geðheilsu. „Ég bjó til glansmynd,“ sagði hún, „en ekki til að vekja öðrum öfund, heldur til að vekja sjálfri mér von um að lífið sé þess virði að lifa því, þrátt fyrir allt.“
Öll erum við að heyja bardaga sem aðrir vita lítið sem ekkert um – og varðar ekkert um. Við skuldum engum að segja alla sögu okkar, alltaf, alls staðar. Í heimi þar sem við getum verið hvað sem er, verum góð við hvert annað, líka við glansmyndafólkið. Hver veit nema einmitt þau þurfi mest á því að halda.